Útrás fyrir illkvittni

Íþróttir eru til margs gagnlegar -ekki sízt fótbolti.

Til að vega upp eigið hæfileikaleysi við iðkun þeirrar íþróttar hef ég mikla skoðun á getu og getuleysi annarra fótboltamanna og þeim mun meiri sem þeir spila með frægari liðum. Í því sambandi á ég mér uppáhaldslið og uppáhaldsleikmenn. Það er þó ekki nema hálfur hlutur. Maður verður að líka aða hata einhver lið því annars hefði uppáhaldssemin ekki sömu virkni. Og hjá mér er forgansröðin oftast þessi

Bezta tilfinningin er þegar mitt lið vinnur
Næstbezta tilfinningin er þegar KR tapar

en verð þó að viður kenna að stundum hefur forgangsröðin snúizt við.

Nú, fyrst liðið mitt tapar stigum eftir stigum í deildinni þá er ég samt glaður. Þökk sé þeim sem hafa spilað við KR!


Sumarið kom kl. 11

Veður hefur mikil áhrif og margir eru auðvitað mjög svo uppteknir af veðri. Og stundum hafa menn haft miklar áhyggjur af góður veðri. Hér í Eyjafirði er norð-austan áttin holdgervingur veturs og ótíðar. Suð-vestan áttin er hins vegar hlýjuberinn mikli.

Af bónda einum hér í sveit er sögð ágæt saga. Svo bar til á miðjum vetri að stöðuga suð-vestan áttin gerði með litlum fyrirvara. Glöddust menn almennt yfir þessum búauka. Bóndanum okkar varð hins vegar ekki um þetta og gerðst æ þyngri í sinni sem sumaráttin góða geysaði lengur. Skildu menn lítið í geðbrigzlum granna síns og höfðu af þeim áhyggjur. Gekk svo langt að gengið var eftir því við bónda hvað það væri sem legði að honum svo mikinn kvíða -og það í svo mildri tíð. Svaraði bóndi því til um suð-vestan áttina að ekki yrði hún bermileg þegar hún kæmi til baka!

Sumarið kom hins vegar hér á Grund laugardaginn 26. maí, klukkan 11 Grin


Framlengdur kosningavíxill

Í einni af orrahríð kosningabaráttunnar gerði Siv Friðleifsdóttir samkomulag við tannlækna um tannvernd. Það má vel deila um tímasetninguna og ég veit að sumir vina minna í Samfylkingunni urðu fúlir og töldu Siv vera að stela frá sér málinu og gefa út vænan kosningavíxil. -Sjálfur taldi ég þetta til góðra bóta.

Eitt af af mörgu góðu sem kemur fram í stefnumiðum xS, Fagra Íslandi, er einmitt að tannvernd barna verði hluti af velferðarkerfinu og svo sannarlega vona ég að hinn meinti kosingavíxill Sivja verði í fyrst framlengdur og síðar endurbættur. Allt til eilífðar.

Hitt sem snýr að samningi Sivjar við tannlækna kemur minna á óvart. Meistari Sigurjón Benediktsson á Kaldbaki við Húsavík. Hann var nýlega valinn í forystu Tannlæknafélagsins og þeir sem hann þekkja vita að tímasetningin á samningnum við Siv var einungis sá stutti tími sem hann hafði til að þoka málinu og kom kosningum ekkert við.


Að bíða eftir dömufríinu !

Á framsókn.is las ég m.a. þetta eftir Jón Sigurðsson:

Nú er ljóst að eiginlegar og formlegar stjórnarmyndunarviðræður eru framundan. Rétt er að það komi skýrlega fram af hálfu Framsóknarflokksins að það liggur fyrir að Framsóknarmenn hafa vel getað hugsað sér að benda á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til að leiða viðræður við aðra núverandi stjórnarandstæðinga og Framsóknarmenn, ef slíkur stjórnarmyndunarkostur kemur yfirleitt til greina af hálfu Samfylkingarinnar.

og það rifjaðist upp fyrir mér að þau voru sjaldan dömufríin á sveitaböllunum í gamla daga. Þar reyndi á karlmennskuna! Hitt var svo vízt, að þeir sem hugðu gott til glóðarinnar með sætustu stelpunni á ballinu urðu að bjóða henni í dansinn -og það áður en ballið var búið!!


Ákall til Samfylkingarinnar

Nú, þegar lítur út fyrir að xS gangi til stjórnarmyndunar við xD, á ég þá heitu ósk að Samfylkingin geri sér far um að hefja stjórnarandstöðuna til vegs og virðingar á Alþingi. Eins og Samfylkingarmenn þekkja, og hafa ítrekað kvartað yfir, var tilhneyging fráfarandi ríkisstjórnar að misvirða og virða að vettugi góð og mikilvæg mál stjórnarandstöðunnar.

Gefið eins mikið ráðrúm til samstarfs við komandi stjórnarandstöðu og unnt er. Verið minnug þess að flokkarnir sem mynda næstu stjórnarandstöðu hafa verið kosnir og valdir af fjölda fólks og gefið þeim grið með fjölda góðra mála sem þeir lögðu upp með í kosningabaráttunni. Sýnið kjósendum þessara flokka virðingu.

Samfylkingin rak mjög málefnalega kosningabaráttu og ég vona að það eigi sér framhaldslíf innan nýrrar ríkisstjórnar með xD. -Sýnum að áherzlan á jafnaðarmennsu og félagshyggju er ekki ábyrgðarlaust hjal með hunangsmýktu munnvatni rétt fyrir kosningar.´

Sjálfur hefði ég kosið að fá hér upp vinstri stjórn og margir hafa bent á að sá möguleiki var fyrir hendi. Því miður virðist sem Steingrímur J hafi aðeins misst jafnvægið í einhvers konar fyrirtíðarspennu og ég er á þeirri skoðun að rétt sé að bíða annars tækifæris til að mynda ríkisstjórn með VG og þess vegna Framsókn ef með þarf.


Eru jafnaðarmenn og vinstrimenn hættulegir landi og þjóð?

Sjálfstæðismenn hafa mikið gert úr því að vinstri stjórn á Íslandi sé þjóðinni hættulegt og tekur Sigurður Kári það upp í pistli sínum hér. Sem venjulegur launamaður, íslenzkur sveitastrákur og kjósandi í Norðurlandskjördæmi eystra er ég eiginlega yfir mig bit á svona málflutningi. Sigurður Kári er á engan hátt yfir mig hafinn og heldur ekki þá sem ég veitti atkvæði mitt í nýafstöðnum kosningum. Einhversstaðar þætti þetta sjálfbyrgingsháttur.

Hvað felst svo í að halda því statt og stöðugt fram að meint vinstri stjórn sé landinu hættuleg? Ég furða mig á svona ummælum úr garði alþingismanns. Veit ekki betur en að vinstri menn og jafnaðarmenn sé að finna allstaðar í samfélaginu, fólk sem vinnur sín störf af heilindum og fagmennsku ekkert síður en t.d. framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn. Ríkisstjórn Íslands er þar engin undantekning og hún er í sjálfu sér ekkert merkilegri en venjulegt heimilishald þar sem konur eru oftast kjölfestan í góðum ráðahag. Ég held að það væri því nær að fá fleiri konur til að sjá um ríkishaldið, þær virðast hafa mun betri sýn á það sem skiptir máli í lífinu heldur en karlarnir. Og skiptir þá flokkspassi engu máli. Fleiri konur í ríkisstjórn: Þorgerði Katrínu, Guðfinnu Bjarnad., Ingibjörgu Sólrúnu, Katrínu Júlíusdóttur, Siv Friðleifsdóttur, Valgerði Sverrisdóttur, Katrínu Jakobsdóttur og Álfheiði Ingadóttur. Geir mætti þess vegna sitja við háborðið og ráða afstöðu heimilisins til Britney Spears og Runna forseta.


Ögurstund framsóknar -Dagur hinna glötuðu tækifæra ?

Eins og staðan er núna lítur út fyrir að Framsókn ætli að sænga áfram hjá Geir. Miðað við það sem á undan er gengið er það trúlega ekki mjög klókt til lengri tíma litið. En, það er auðvitað löngu þekkt að með því að míga í skóinn sinn vinnst stundarilur.

Hins vegar kemur mér það á óvart að Guðni og Siv skuli ekki nota tækifærið og rétta sinn eigin hlut í flokknum -og til lengri tíma litið, hlut flokksins í íslenzkri pólitík. Allt plott um að gera þingflokkinn að ráðherrum og kalla til varamenn þá eru þeir að halda áfram á sömu braut við að ofbjóða fólki með hreinni valdagræðgi.

Hélt satt að ssegja að Guðni og Siv væru meiri og skynsamari bógar en þetta.

En, þegar öllu er á botninn hvolft, kannski snýst pólitíkin bara um stundarhagsmuni einstaklinga  sem láta sig litlu varða annarra velferð. -Og það sem verra er, kannski er þetta ekki einu sinni bundið við Framsóknarflokkinn ?!!

 


xD og xV

Jæja, þá er talningunni lokið og, fyrir þá sem sátu á jöfnunarmannarússíbananum, spennandi kosninganótt.

Úrslitin eru skýr:

Vinstri grænir og sjálfstæðismenn vinna afgerandi kosningasigra -Til hamingju með það.

Lýðræðisleg viðbrögð:

Virði menn lýðræðið einhvers þá eiga þessir tveir flokkar að koma sér saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Það er ákveðinn kostur við þess konar ríkisstjórn að hún er líkleg til að verða mynduð á pólitískra hrossakaupa. Menn þurfa að takast á um forgangsröðun grundvallarþátta er varða samfélags- og velferðarmál og miðað við framang t.d. xD í kosningabaráttunni þá ætti það ekki að verða erfitt! Svo hefur mér skilizt að báðir flokkar séu hlynntir fækkun ráðuneyta.

Útkoma xD er á sinn hátt viðurkenning á ákveðinni endurnýjun sem fór fram á sumum framboðslistum þeirra fyrir nýafstaðnar kosningar. Það er því tilhlýðilegt að Björn Bjarnason fái hvíld frá ráðherraembættum í nýrri ríkisstjórn. Sá er orðinnn hvíldarþurfi sem fellir þann dóm yfir eigin verkum á þau séu "hafin yfir gagnrýni".


Góður dagur

Þá er hann runninn upp, laugardagurinn 12. maí þessa árs. Dagur sem á einn eða annan hátt skipar mismikilvægum örlögum og dagur sem allmargir hafa miðað nánustu framtíð sína við. Frambjóðendur stjórnmálaflokkanna hafa undanfarið staðið í ströngu við að kynna sitt eigið ágæti, en -nú er komið að okkur kjósendum með husjónir, drauma og sannfæringu fyrir betra Íslandi að vopni. Óska frambjóðendum stjórnmálaflokkanna góðs gengis og velfanaðar í starfi -innan eða utan þings.

Eyf1240Kjörstaðurinn minn er í Hrafnagilsskóla, Eyjafirði, og ég stefni að því að fara, eins og venjulega, ríðandi á kjörstað. Það finnst mér þjóðlegur og góður siður. Grobbhaninn hér til hliðar er að vísu heldur ungur ennþá!!

 

Óska kjósendum öllum og frambjóðendum þeirra góðs dags Cool


Nostalgía eða sjálfshjálparleið ?

Þá er Júróvisjón draumurinn úti þetta árið -eins og reglur gera ráð fyrir.

Eiríkur stóð sig vel, flutningurinn frábær, lagið fínasta rokkballaða og allt það.

Ég get samt ekki neitað því að allt tal um austantjaldsmafíu veldur mér hugarbrotum. Júróvisjón hefur alltaf verið rammpólitísk og jafnvel löngu áður en austurblokkin brotnaði upp. Það er náttúrulega bara af því að Eiríkur var með bezta lagið og flutninginn að hann hefur fengið fullt hús stiga hjá Norðmönnum ? (það er axiom!)

Gleymum því ekki að þjóðir Austur-Evrópu eru að endurheimta sig sem sjálfstæð ríki og ég er ekki frá því að þáttaka þeirra í Júróvisjón og innri samsvörun þeirra í milli geti verið og sé sjálfshjálparleið til að vera menn meðal manna. Júróvisjón snýst ekki svo mikið um tónlist.

Ef það er einlgur ásetningur okkar að ná upp úr 2. deild Júróvisjón þá verðum við að finna einhvern sykursætan flytjanda frá Austur-Evrópu til að flytja atriðið og halda á honum 3ja-5 mánaða kynningu í Austur-Evróðu fyrir keppnina. -Og kannski þurfum við ekki að leita langt yfir skammt. Og það hefði e.t.v. verið skynsamlegt að senda sígaunana í söngprufu áður en þeir voru sendir úr landi um daginn !??

En, svona til upprifjunar; Hvað fékk Noregur mörg stig frá Íslandi þegar Eríkur Hauksson keppti fyrir þá um árið? -Ég bara man það ekki. Var kannski ekki komin á símakosning þegar það var?

Það sem skiptir okkur máli: Eiríkur var sjálfum sér, fjölskyldu sinni og þjóð til sóma með frammistöðu sinni. -Enda liggur það í eðli hans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þorsteinn Egilson

Höfundur

Þorsteinn Egilson
Þorsteinn Egilson
Jarðvísindamaður, tveggja barna faðir og áhugasamur um velferð heimsins. Forfallinn hestamaður og hrossaræktarfíkill

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • DSC01494
  • Aron
  • DSC01477
  • DSC01616
  • Eyf1240

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 220

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband