Innkoma Indriða H á bloggið

Þau stórmerku tíðindi hafa nú gerzt í aðdraganda kosninga að Indriði H Þorláksson úr Eyjarhólum og fyrrverandi skattstjóri birtir stórfróðlegar geinar um skattamál. Þrjár greinar hans hafa greinilega átt að birtast í Mogganum fyrir kosningar. Sú fyrsta birtist s.l. mánudag en ritstjórar Mbl hafa ekki fundið hinum pláss ennþá. Þar sem Indriði tekur ekki áhættuna á að það dragist fram yfir kosingar þá nýtir hann sér bloggið. -Gott hjá honum.

Eftir lestur greinanna verður að viðurkennast að ég bíð spenntur eftir viðbrögðum þeirra háu herra Geir H Haarde og Árna Matthiesen. -Afgreiða þeir Indriða með sama hætti og Stefán Ólafsson fyrr í vetur?

Ég hef alla vega aldrei heyrt nokkurn mann ýja að því að Indriði H Þorláksson kunni ekki að reikna !!!!


Hvernig líður Yngva Hrafni eiginlega?

Vitiði hvað? Stundum finnst mér Yngvi Hrafn vera fífl og asni. En svoleiðis segir maður aldrei um fólk.

Kannski líður honum bara illa.

Ég er voða sjaldan ruddalegur við samfélagið og samferðamennina. Það kemur samt fyrir. En, þá er það ekki bara vegna þess að ég er fífl og asni, heldur líka vegna þess að þá líður mér bara ekki vel.


Klappstýrurnar hjá xD að fara á taugum?

Nú er gaman Devil

Hver xD-arinn af fætur öðrum geysist nú fram í hræðsluáróðrinum sem mest hann má. Í þessum málflutningi leynist hreint ótrúlegt virðingarleysi við samborgarana og okkur, hinn almenna kjósanda. Mér er eiginlega misboðið.

Ég kýs ekki xD og það er minn réttur. Sumir vina minna kjósa meira að segja xB og það er þeirra réttur.

Reyndar hélt ég að xD hefði langa og góða (öllu heldur illa) reynzlu af því að úthróp með passaðu þig, passaðu þig á kommúnistunum snérust upp í andhverfu sína að þeir gerðu ekki slíka vitleysu. Halda xD-arar virkilega ennþá að kjósendur séu fífl? -Hafa menn ekkert lært?
-Af hverju varð Bjarni dómprófastur ekki-forseti?
-Hverjir fældu kjósendur til VF á lokasprettinum 1980 þegar beina átti Alberts- og Pétursmönnum yfir til Guðlaugs?

Hræðsluáróðurinn "Stórhætta á vinstri stjórn" er reyndar svolítið hjákátlegur og endurspeglar miklu fremur persónulegar áhyggjur manna af því að missa stöðu sína við kjötkatlana heldur en raunverulegar áhyggjur þeirra af "tilræði við lýðræðið og kjörin í landinu". xD hefur ekki sízt flokka boðað samfélags- og velferðarpólitík fyrir þessar kosningar. Það er vonandi ekki úlfur, úlfur í sauðsgæru!

Ágæta xD fólk. Kannski eru úthróp ykkar og hræðsluáróður skyndisóknin sem við jafnaðar og félagshyggjufólk þurfum á lokaspretti kosningabaráttunnar. Þannig að þegar öllu er á botninn hvolft: Í guðanna bænum hrópið hærra svo það heyrist betur!!

Áðan var staðan 4-0 en það er nú þannig í boltanum að maður fær ekki mörkin skráð sem lenda í eigin marki.


4-0 og pakkað í vörn ?

Það var skemmtilegt komment á frammistöðu GHH í kosningaþætti á Stöð 2 miðvikudagskvöld að hann væri fjögur núll yfir og hefði pakkað í vörn! Datt strax í hug hvort mágur hans hefði tekið við leikstjórninni !!!

Það var gaman að fylgjast með þættinum. Allir þessir formenn meina vel en það er eins og gengur, mismunandi aðstæður sem þeir vinna við. Að sumu leyti sýnist mér ISG vera að endurheimta sig sem helzt í hendur við málefnalegan og metnaðarfullan framgang xS í þessari kosningabaráttu. Þar á bæ boða menn fagnaðarerindið á grunni jafnaðar og famsækni, og, hafa náð að hrista af sér vandræðalegar uppákomur í aðdragandi kosningabaráttunnar.

Ómar er sér líkur -ótrúlega sannur hugsjónamaður með hóp af góðu fólki í kringum sig. Og, þó xI nái ekki inn til Alþingis þá hefur innkoma þeirra vissulega haft áhrif á umræðuna um umhverfismálin -og mun gera áfram.

Steingrími fatast ekki tungan -og honum fatast heldur ekki samkvæmni við sjálfan sig, hann er sjálfum sér og sinni stefnu trúr. Þrátt fyrir ungan aldur, þá er SJS orðinn gamall í pólitík. xV hefur verið í sókn þar sem ungt, vel gefið og verulega frambærilegt fólk er orðið meira áberandi, flokksstarfinu og ímyndinni til framdráttar. Mér finnst að sumu leyti Steingrímur, og ekki sízt Ögmundur, allt að því vera farnir að flækjast fyrir. Það má þó alls ekki vanmeta þá vakningu sem er hjá xV og nái þeir, eins og allt lítur út fyrir, að rúmlega tvöfalda fylgi sitt frá síðustu kosningum, þá er það auðvitað frábær árangur.

Guðjón Arnar er góður maður. Hann vill vel (er hægri krati eins og ÖssurCool) en þeim í xF tekst illa að losa sig við einsmáls-stimpilinn, og það sem verra er, það gætir ákveðinnar uppgjafar hjá þeim í því máli.

JS er í erfiðri stöðu sem er að hluta til sjálfsköpuð. Fyrir mér kemur hann inn á sjónarsviðið sem leikbrúða Halldórs Ásgrímssonar og meints flokkseigendafélags. Það getur ekki verið til álitsauka út fyrir lokaðan klúbb að hunza flokksþing og kjör varaformanns þar með því að varaformaður taki ekki við þegar formaður hættir. Valdhroki segir einhver.

Kosið er eftir tvo daga. Í tiltölulega viðamikilli könnun með 2400 í úrtaki næst rúmlega 60% svarhlutfall. Þetta getur því farið hvernig sem er. Ég spái að þeim farnist bezt sem raunvirði rétt hvers kjósanda og sýni honum auðmýkt og geri sér gein fyrir því að hann er EKKI fífl.

Og, það skyldi þá ekki fara svo að GHH fái á sig nokkur mörk í uppbótartíma !??!


Hvar er samkeppnishugmyndafræðin?

Nú er í tízku á Íslandi að stofna orkuháskóla og kannski ekkert nema gott um það að segja. Við megum samt ekki gleyma því að Jarhitaskóli Sameinuðu þjóðanna hefur verið starfræktur hér á landi í samvinnu við Orkustofnun síðan 1979 og nám við skólann til meistaragráðu var tekið upp í samvinnu við Háskóla Íslands árið 2000. Sjá http://www.os.is/page/jhs_icelandic

Það vekur athygli mína að forstöðumaður háskólauppbyggingar á alþjóðlegum háskóla og fræðasetri skuli vera ráðinn á auglýsingar!  -Skiptir þá engu að Hjálmar Árnason er vænzti maður, var vinsæll í starfi sínu sem skólameistari, vinalegur alþingismaður og er yfir höfuð vel meinandi.

En, burtséð frá því. Farið að fjalla um umhverfis- og orkumál samtengdum skilningi og það lízt mér vel á.


FH -Einu sinni enn?

Yrði það ekki einum of?

Ég vænti þess að Valsmenn, mínir menn í boltanum hér heima, safni Dollunni nú loksins að Hlíðarenda við sumarlokin. -Eða, er ekki tími til kominn?


Næstu fjögur ár við Austurvöll

Nú, í all langan tíma hefur blasað við að næsta ríkisstjórn Íslands verður ekki mynduð án atbeina Sjálfstæðisflokksins. Spá mín um 37% fylgi við flokkinn rætist tæplega, enda er eins og ímynd hans hafi mýkzt með innkomu Geirs og kó sem í ofanálag boða á köflum hreina og klára samfélagspólitík. 40% fylgishlutfall við Sjálfstæðisflokkinn virðist óhjákvæmilegt.

Þá er það spurningin hverjir verði samverkamennirnir?
Taki maður mið af hugsuninni á bak við lýðræði þá eru í rauninni bara tveir kostir: xD vs xS eða xD vs xV
Langeðlilegast væri þó að flokkarnir þrír , V, S og D, mynduðu saman ríkisstjórn en því miður verður því ekki til að heilsa.
xD vs xB, xD vs F með helmingaskiptahestakaupum sem færir 5-10% flokkum 50% valda er hræðileg afskræming lýðræðisins.

Hvort sem það verður Vinstri hreyfingin grænt framboð eða Samfylkingin sem setjast við stjórnvölin með Sjálfstæðisflokknum þá má það ekki gerast nema að þeir nái fram sínum áherzlum í samfélags- og velferðarmálum. Að fjárfest verði í fjölskylduvænu umhverfi, menntun, jafnrétti og heilsu, samgöngum, menningum og listum. Og, að litið verði á það sem fjárfestingu að vernda og fegra landið. Undirbúa afnám verðtryggingar til að okkar unga og fagra fólk verði ekki þrælar bankakerfisins, frekar en það vill.
Að þessu sinni ætti ekki að vera svo erfitt fyrir xV og/eða xS að semja við Sjálfsstæðisflokkinn miðað við þá sósjalpólitík sem sá flokkur boðar fyrir þessar kosningar og í raun er hér sögulegt tækifæri til að láta xD standa við kosningaloforðin á þessum vettvangi og beina athyglinni að því sem skiptir máli: velferð fólksins í landinu.

Við lifum í góðu landi með góðu fólki. Gerum landið okkar betra fyrir enn fleiri.


Framsóknarmennska

Nokkrir minna beztu vina eru framsóknarmenn, án þess að ég skilji hvers vegna. Allir framsóknarmenn sem ég þekki eru einstaklega gott fólk. Hér er komin dílemma því margt í stjórnarathöfnum flokksins stangast á við almenna reynzlu mína af framsóknarmönnum.
Ég hef raunar í mörg ár reynt að átta mig á tilgangi flokksins í íslenzkri pólitík. Niðurstaðan er tilfinningalegs eðlis og segir mér að flokkurinn sé tímaskekkja, enda virðast flestir bændur t.d. sjá hag sínum bezt borgið með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Af framsóknarmönnum eru

NOKKRIR (10% ?) sem aðhyllast frjálshyggju, kapítalisma og sérhyggju og gera því bezt í að kjósa xD

FÁIR (5% ?) sem vilja tafarlaust afnám kvótakerfisins. xF

MARGIR (20% ?) sem aðhyllast íhaldssama umhverfisstefnu. xV eða xI

LANGFLESTIR eins og ég, frjálslyndir og umburðarlyndir jafnaðarmenn og umhverfissinnar með framsækni að leiðarljósi.

Í lokin vil ég svo ítreka að ofangreind niðurstaða er tilfinningalegs eðlis og byggir ekki á félagsvísindalegum (og enn síður á raunvísindalegum) tilraunum. Einnig er hún vafalítið lituð af þeim trúarbragðaeinkennum sem mengar íslenzka pólitík. Hvernig á annars að túlka auglýsingar flokkanna nú í aðdraganda kosninga til Alþingis.


Blessað kvótakerfið -Við hverju má búast?

Var að lesa frétt um stórtækt kvótasvindl:

"Fiskistofustjóri segir að svindl eigi sér stað - það nemi fáeinum þúsundum tonna á hverju ári - sem eru verðmæti fyrir milljarða króna. Sjávarútvegsráðherra er ekki á sama máli."
-Hvað veit ráðherrann eiginlega?

"Forystumenn sjómannahreyfingarinnar segja svindlið beina afleiðingu af kvótakerfinu. Fiskistofustjóri er ekki sammála."
-Hvað meinar fiskistofustjóri? Að unnt sé að selja ís sem fisk!??
-Felst ekki svindlið í því að vikta fisk sem ís og ná þannig að veiða umfram kvóta? Eða hvað??

Er ekki tímabært að menn reyni að finna raunhæfar leiðir út úr núverandi kerfi, þó svo að það taki einhver ár eða áratugi? -Einkaeign á fiskistofnum (heitir vízt "leyfi til að veiða") er með öllu óásættanleg, til skemmri og, ekki sízt, til lengri tíma litið.


Kosningar í nánd

Þó svo maður viti hvað maður ætli að kjósa í kosningum til Alþingis um næstu helgi þá tók ég mjög athyglisvert próf í dag. Prófið fólst í því að svara grundvallarspurningum um viðhorf til lífsins og í lokin voru spurningarnar tengdar áherzluatriðum flokkanna fyrir þessar kosningar. Niðurstaðan var sláandi: 62.5% xS, 40% xB, 40% xI, 37.5% xV, 33% xF og 25% xD. -Tek þetta til rækilegrar athugunar!

Krækjan á þetta próf er http://xhvad.bifrost.is


« Fyrri síða

Um bloggið

Þorsteinn Egilson

Höfundur

Þorsteinn Egilson
Þorsteinn Egilson
Jarðvísindamaður, tveggja barna faðir og áhugasamur um velferð heimsins. Forfallinn hestamaður og hrossaræktarfíkill

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DSC01494
  • Aron
  • DSC01477
  • DSC01616
  • Eyf1240

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 253

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband