Færsluflokkur: Bloggar

Reiðhallir á Melgerðismelum og Akureyri

"Dagurinn í gær, laugardagurinn 23. febrúar var gleðidagur. Þá var reiðhöllin á Melgerðismelum vígð. Því miður missti ég af þeim merka atburði en gleðin er ekki minni fyrir það. Um er að ræða mikið framfaraskref í hestamennsku í Eyjafirði enda hefur það hvarvetna sýnt sig að þar sem góð inniaðstaða er fyrir hendi fær iðkun hestammennskunnar annan brag.
Melgerðismelar eru frábært útivistarsvæði, að mestu hannað af náttúrunnar hendi en flestar manngerðar framkvæmdir þar eru að miklu leyti vel heppnaðar, ekki sízt skógræktin sem gefur svæðinu æ meiri svip.
Í mínum huga hefur það lengi blasað við að á Melgerðismela á fólk í stórum stíl eftir að flytja sína hestamennsku. Strax má skynja aukinn áhuga manna á að nýta núverandi hesthús enn frekar og í bígerð er að reisa þar ný hesthús á næstu misserum og þá er boltinn byrjaður að rúlla fyrir alvöru. Melgerðismelar eru að verða vettvangur alvöru hestamennsku og það á heilsársgrundvelli.
Akureyri og Eyjafjarðarsveit eru blómleg og vaxandi sveitarfélög og hafa upp á margt að bjóða sem sameinar hinn frjálsa náttúrudraum og aðgengi að ágætu úrvali menningar og almennra verzlunarþarfa. Landssvæðið í heild býður upp á glæsileg tækifæri til útivistar, hvort sem er til lands eða lagar og þar á þáttur hestamennskunnar eftir að aukast til muna.
Það er líka annar gleðidagur í vændum. Reiðhöllin á Akureyri er risin og verið er að ganga frá innanstokksmunum. Með tilkomu þessa stórkostlega mannvirkis vænkast sóknarfæri í hestamennsku í Eyjafirði og nærsýslum til muna og ég sé fyrir mér að öll nýliðun fær víðar þanir. Vegna tiltölulega hás þjónustustigs, stórra menntunartækifæra og fræbærrar aðstöðu til íþróttaiðkana verður það fýsilegur kostur fyrir hestafólk, tamningamenn og reiðkennara að koma og setjast hér að með sínar fjölskyldur og starfa við sína atvinnugrein. Við Verkmenntaskólann verður stofnuð hestabraut og síðar reiðkennarabraut og við Háskólann á Akureyri er til staðar nám í uppeldis- og kennslufræðum sem ekki sízt á erindi inn í almenna reiðkennslu. Það er því góður tími framundan hjá hestafólki í Eyjafirði og það er mikið pláss fyrir fleiri.

Kveðja,


Styður yfirlýsinguna en ..

Samkvæmt þessari frétt styður Hanna Birna yfirlýsingu VÞV en ég get hvergi séð að hún styðji Vilhjálm sjálfan. Er nokkuð "sjúr" -þetta er meðvitað orðalag!!

Mbk., 


mbl.is Styður yfirlýsingu Vilhjálms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið stutta pólitíska nef VÞV

Því miður er ekki hægt að segja að útundanstökk ÓFM komi á óvart, það er eitthvað sem legið hefur í loftinu allt frá því hann tók aftur sæti sitt í borgarstjórn.

Það ætti kannski að koma á óvart hversu VÞV afhjúpar í enn eitt skiptið pólitíska skammsýni en trúlega var það fyrirsjáanlegt líka. Maður sem hefur verið svona lengi í pólitík ætti að hafa meiri reynzlu en svo láta undan tímabundinni sældartilfinningu hefndarinnar -sem varir svo stutt, svo stutt. Síðan er það forvitnileg spurning hve margar pólitískar sjálfsmorðstilraunir þurfi til að klára málið.

Sjálfstæðisflokkurinn er víðtæk valdastofnun um allt land og innan hans starfar að sjálfsögðu fullt af hæfu, öflugu og áhugasömu fólki. En, þegar kemur að Reykjavík í dag þá finnst mér með ólíkindum hvernig Sjálfstæðisflokkurinn nær að lítillækka sig og sína kjósendur, sem eru margfalt fleiri en þessir örfáu sem ÓFM státar af. Hvernig leið borgarfulltrúum xD raunverulega standandi í beinni útsendingu sjónvarps fyrir aftan nýja borgarstjóraefnið lesa orðrétt upp úr kosningaplaggi xF fyrir síðustu kosningar? -Alla vega var enginn sældarsvipurinn á þeim. Að ÓFM skuli við þessar aðstæður vera gerður að borgarstjóra er skrumkæld útfærzla á lýræðinu.

Ég verð að viðurkenna mig hissa á því að xD skuli sýna það ábyrgðar- og dómgreindarleysi að ganga til meirihlutasamstarfs við einn mann sem er ekki einu sinni í samskiptum eða samráðum við sína eigin meintu meðverkamenn. -Á hvað eru þeir að leggja sitt traust?

Það vekur athygli að formaður xD hefur, enn sem komið er, ekki tjáð sig um þessa útfærzlu VÞV á meirihluta í borginni og ég hef meiri trú á GHH en svo að honum sé endilega skemmt enda ýmislegt sem bendir til þess að sjálfstæðismenn séu að "afsala sér" völdum í Reykjavík til pólitískt langrar framtíðar með þessum gjörningi.

Af þeim viðtölum, eldri og yngri, sem ég hef séð við Ólaf í fjölmiðlum þá virkar hann ekki stöðugur á svelli og það er fátt sem bendir til þess að hann eigi eftir að  höndla hið eril- og áreitissama starf borgarstjóra. -Og, hver verður staða VÞV þá, einu til einu og hálfu ári fyrir kosningar?


Margir sárir -en hvað svo?

Það hefur ekki farið framhjá neinum að skipan (að eigin vali!) Árna Matthiesen hestamanni á nafna mínum Davíðssyni í starf héraðsdómara í Norðausturkjördæmi hefur komið mörgu sómamenninu í uppnám. Ekki sízt hafa bloggheimar hreinlega logað. Persónulega finnst mér skondið að Árni skuli gangast við meintu mati sínu á því að Þorsteinn hafi verið hæfastur umsækjenda þegar fyrir liggur hæfisröðun þar til gerðrar nefndar sem fjallar um hæfi umsækjenda, fyrr má nú aldeilis hafa trú á eigin dómgreind og þekkingu á innviðum lögspekinnar. Eflaust á arfleifð bókmenntanna einhversstaðar til lýsingar á sams konar persónuleika þó ég í fáfræði minni geti ekki til þess vitnað.
Ekki hef ég orðið annars var en að þeir sem taka þetta mál sárast til sín eru heilgrónir sjálfstæðismenn, hvort sem þeir nú eru lögspekingar, guðspekingar eða annars konar spekingar yfirleitt. Þeim virðist hvað mest misboðið. Og miðað við umræðuna og alla þá hneykslan sem birzt hefur um þennan gjörning "égræðherra" þá er útilokað annað en að menn láti á þetta reyna fyrir dómstólum.
Vegna þess hve menn eru sárir og reyðir Árna (eða Birni, þeir sem hugsa lengra) þá er sjálfgefið að tímasetja málafærzluna þannig að dómur falli ekki alltof mörgum vikum fyrir prófkjör hjá xD og koma þannig í veg fyrir að pólitískt skammtímaminni kjósenda firni umræðuna.
Vonandi verður málsóknin samt ekki dómtekin í norðausturrétti en eðli málsins samkvæmt þá endar hún -tímabundið alla vega - hjá Hæstarétti og þá hlakka ég mest af öllu til að lesa sératkvæði Barkar og Jóns Steinars.


Vantar ekki kantmennina?

Ágætis hugmynd þessi samráðsvettvangur. Það vantar hins vegar fulltrúa stjórnarandstöðunnar á Alþingi í þennan hóp!


mbl.is Samráðsfundur um efnahagsmál í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæðagripurinn Aron frá Strandarhöfði

Á LM 2002 voru fjórir 4v stóðhestar sem vöktu nokkra athygli, hver á sinn hátt. Allir voru hestarnir vel í umræðunni og fengu í kjölfarið margar allgóðar merar til sín.

AronEinn þessara hesta er Aron frá Strandarhöfði og síðsumars 2002 keypti ég einn hlut í hestinum, reyndar fyrir miklu meiri pening en ég hef nokkru sinni átt handbæran!!
Á Grund eru þegar til fjögur afkvæmi hans, hvert öðru gjörvilegra. og DSC01494hryssan hér til hægri er Höfgi.
Nú í vor hafa nokkur trippi, 5v og 4v, undan Aroni verið sýnd í kynbótadómi.  Óhætt er að segja að Aron byrjar vel. Öll þrjú 5v afkvæmi hans eru með fyrstu einkunn, meðaleinkunnir 8.17/8.25->8.22. Öll þessi trippi stórbættu sig milli ára.
Tíu 4v trippi undan Aroni komu til dóms, þar af átta í fullnaðardóm. Meðaleinkunnir þeirra eru 7.95/7.95->7.95 en hópurinnn er nokkuð fjölbreyttur en tvö af þessum trippum eru með 8.45 fyrir hæfileika sem er auðvitað frábært.
Fjögur trippanna hafa 8.5 eða meira fyrir háls, fimm þeirra hafa 8.5 eða meira fyrir tölt og sex af þeim hafa 8 eða meira fyrir skeið.
Ef allrar sanngirni er gætt þá verður ekki annað sagt en að Aron stendur vel undir væntingum og jafnvel má reikna dæmið þannig að þetta "hafi borgað sig"

Hrossarækt -Drifkraftur vonar

Kynbótastarf í kringum íslenzka hestinn tekur alltaf mikinn kipp á vorin. Þá fara í gang ýmsar pælingar um kosti og lesti einstakra gripa og ætta, sitt sýnist hverjum um ágæti þeirra og pólitíkin er mikil og óvægin.
Hrossarækt er eitt af mínum helztu áhugamálum. Þó svo að ég stati ekki af neinum úrvals árangri þá finnst mér ég eiga ágætlega falleg og góð hross. Það er svo spurning þegar maður heldur bara einni meri hvort það telst eiginlega til hrossaræktar.

Vonin er öflugasta hugtakið á bak við hrossaræktina -hjá öllum! Nú á ég í félagi við vinn minn fyrir sunnan fola sem okkur finnst sérlega glæsilegur en hann er 3ja vetra nú á þessu vori. Og að sjálfsögðu bindum við miklar vonir við gripinn en hann verður ekki taminn fyrr en næsta -svo enn er von. Til grobbunar þá er hér ein mynd af meistaranum....Grunnur frá Grund

 


Alltaf trú á boltanum. -Ekki satt, Eyjólfur?

Eins og við er að búast gerir Eyjólfur ráð fyrir því að hressast -einhverntíma alla vega.  5-0 tap fyrir Svíum núna gerir það að verkum að nú er einum leik færra þar til við vinnum næsta leik -ekki satt, Eyjólfur? Þessi leikur var svo sem ekki góður af okkar hálfu enda við ofurefli að etja, margreynda og flinka tuðrubanara. Svo getur maður spurt sig hvað sé eðlilegt að gera miklar kröfur. -Jú, vinna Liechtenstein. Kannski? Jú, tapa minna en 3-0 fyrir Svíþjóð. Kannski?

Eyjólfur er strax orðinn hressari og segist eiga margt ógert með liðið. -Það getur vel verið. Hann verður samt að átta sig á þessari dæmalausu og óvægu knattspyrnuveröld . Þar sem trúin slokknar jafnfljótt og hún kviknar. Vandinn er bara sá að þegar trúin hefur slokknað, þá kviknar hún ekki aftur!

Þjóðin er búin að missa trúna, leikmennirnir eru búnir að missa trúna og þó Eyjólfur trúi þá dugir hún ein og sér lítið við að hreyfa við fjallgarðinum sem hann, blessaður karlinn, stendur fyrir neðan! -En, það mátti reyna. Og nú er það búið!! -Ekki satt, Eyjólfur?

 


Tímasetningin?

Það er væntanlega róðlegt að sjá hversu vel þessi atburður sést á jarðskjálftamælum. Með því ætti að vera unnt að tímasetja þetta mikla berghlaup.
mbl.is Stórkostlegasta berghlaup í áratugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrás fyrir illkvittni

Íþróttir eru til margs gagnlegar -ekki sízt fótbolti.

Til að vega upp eigið hæfileikaleysi við iðkun þeirrar íþróttar hef ég mikla skoðun á getu og getuleysi annarra fótboltamanna og þeim mun meiri sem þeir spila með frægari liðum. Í því sambandi á ég mér uppáhaldslið og uppáhaldsleikmenn. Það er þó ekki nema hálfur hlutur. Maður verður að líka aða hata einhver lið því annars hefði uppáhaldssemin ekki sömu virkni. Og hjá mér er forgansröðin oftast þessi

Bezta tilfinningin er þegar mitt lið vinnur
Næstbezta tilfinningin er þegar KR tapar

en verð þó að viður kenna að stundum hefur forgangsröðin snúizt við.

Nú, fyrst liðið mitt tapar stigum eftir stigum í deildinni þá er ég samt glaður. Þökk sé þeim sem hafa spilað við KR!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þorsteinn Egilson

Höfundur

Þorsteinn Egilson
Þorsteinn Egilson
Jarðvísindamaður, tveggja barna faðir og áhugasamur um velferð heimsins. Forfallinn hestamaður og hrossaræktarfíkill

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • DSC01494
  • Aron
  • DSC01477
  • DSC01616
  • Eyf1240

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 205

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband